Nú eru ber út um allt. Á trjám í görðum, á lyngi í móa og á plöntum, bæði villtum og tömdum. Krækiber, bláber, bæði aðalbláber og aukabláber, jarðarber, rifsber, sólber og hrútaber. Ber eru alltaf góð á bragðið og óskaplega falleg og að fara í berjamó er eitt það skemmtilegasta sem hægt er að gera á haustin. Til að fara í berjamó þarf eiginlega bara tvennt: góða berjafötu og könguló. Ef þú sérð könguló skaltu segja við hana:
könguló, könguló,
vísaðu mér á berjamó,
þá skal ég gefa þér gull í skó,
könguló ó könguló.
Ef hún gerir eins og þú segir verður þú að athuga að köngulær hafa átta fætur og nota þar af leiðandi átta skó. Þú þarft að passa að vera með nóg af gulli, annars verða berin súr. Gott er að setja ber út á hafragraut og morgunkorn, ís og í kökur. Og auðvitað sultur og hlaup.
Uppskrift að rifsberjahlaupi (gerið með fullorðnum):
settu jafnmikið að berjum og sykri og slatta af grænjöxlum, stilkum og laufblöðum í pott og láttu sjóða í tíu mínútur, hrærðu vel á meðan. Notaðu sigti til að hella hlaupinu frá hratinu (hrat er það sem eftir er af berjunum) í hreinar krukkur.
Hellið svo vatni í pottinn og setjið hratið út í. Látið suðuna koma upp og sigtið síðan saftina frá hratinu.